Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Söguágrip um kaffið

 Þar sem ég er mikill kaffidrykkjumaður hef ég kynnt mér sögu kaffisins að einhverju leyti. Samkvæmt tímaritinu ,,Scientific American" er það bara olíuiðnaðurinn sem slær kaffinu við í veltu bandaríkja-dollara á heimsvísu.

Villta kaffiplantan á rætur sinar að rekja til hálendis Eþíópíu. Tegundin heitir Coffea arabica.Það er ekki vitað með vissu hvenær menn áttuðu sig á eiginleikum brenndu baunarinnar, en það er vitað að á 15. öld voru kaffitré ræktuð á Arabíuskaganum. Þrátt fyrir að lagt hafi verið blátt bann við því að flytja kaffifræ þaðan komust hollendingar yfir annaðhvort tré eða fræ árið 1616. Þeir komu fljótlega á fót kaffiekrum á Ceylon, nú Sri Lanka, og Jövu, sem er nú hluti af Indónesíu.

Árið 1706 fluttu Hollendingar unga kaffiplöntu frá ekrum sínum á Jövu í grasagarðinn í Amsterdam. Plantan dafnaði vel og afkvæmi hennar voru send til Hollenskra nýlendna í Súrínam og Karíbaeyjum. Árið 1714 gaf borgarstjóri Amsterdam Loðvíki 14. Frakklandskonungi eina plöntu. Konungur lét gróðursetja hana í gróðurhúsi í Jardin des Plantes eða konunglega grasagarðinum í París.

Frakkar vildu ólmir hasla sér völl á kaffimarkaðnum. Þeir keyptu fræ og tré og sendu þau til eyjarinnar Réunion. Ekkert fræjanna spíraði og samkvæmt sumum heimildum dóu með tímanum öll trén nema eitt. Engu að síður var 15.000 fræjum af þessu eina tré sáð árið 1720 og þar með var kaffiræktun Frakka hafin. Trén þóttu svo verðmæt að dauðarefsing lá við ef einhver var fundinn sekur um að eyðileggja svo mikið sem eitt þeirra. Frakkar vonuðust líka til að geta hafið kaffirækt á Karíbaeyjunum en fyrstu tvær tilraunirnar mistókust.

Gabríel Mathieu de Clieu var franskur sjóliðsforingi. Þegar hann var í leyfi í París, einsetti hann sér að taka með sér kaffiplöntu heim á landareign sína á eyjunni Martínik. Í maí 1723 sigldi hann af stað meðafkvæmi Parísartrésins. Í bókinni All about Coffee stendur að de Clieu hafi geymt plöntuna í kassa sem var að hluta til úr gleri til að hún gæti drukkið í sig sólargeislana og haldið hita ef veður var þungbúið. Samferðamaður de Clieu, sem var trúlega öfundsjúkur út í hann og vildi ekki að hann nyti frægðar og frama, reyndi að ná plöntunni af honum með valdi en án árangurs. Tréð lifði það af og það lifði líka af bardaga við sjóræningja frá Túnis og mikið óveður. En það hættulegasta af öllu fyrir tréð var vatnsskortur, þegar skipið sigldi inn í lognbelti og komst ekki áfram. Plantan komst lifandi til Martiník þar sem hún þreifst og fjölgaði sér. Gordon Wrigley skrifar í bókinni Coffee; Öll lönd í Ameríku, nema Brasilía, Gvæjana og Súrinam, fengu beint eða óbeint fræ frá þessari einu plöntu á Martiník.

Í Brasilíu og Frönsku Gvæjana vildu menn líka rækta kaffitré. Hollendingar áttu afkvæmi Amsterdam-trésins í Súrínam, en þeir gættu þeirra vel. Árið 1722 komust yfirvöld í Frönsku Gvæjana hins vegar yfir kaffifræ frá glæpamanni sem hafði strokið til Súrínam og stolið þeim. Yfirvöld í Frönsku Gvæjana féllust á að náða hann í skiptum fyrir fræin og var hann látinn laus í skiptum fyrir fræin og var hann látinn laus og sendur aftur til síns heima.

Menn reyndu ýmsar aðferðir til að koma kaffifræjum til Brasilíu án árangurs. En þegar landamæra-deilur komu upp milli Súrínam og Frönsku Gvæjana, voru Brasilíumenn fengnir til að miðla málum. Þeir sendu yfirmann úr hernum að nafni Fransisco de Melo Palheta til Frönsku Gvæjana með fyrirmæli um að koma á sáttum og hafa með sér kaffiplöntur heim. Sáttaumleitanirnar gengu eins og í sögu og landsstjórinn hélt kveðjuhóf til heiðurs Palheta. Til að sýna þessum heiðursgesti sérstakan þakklætisvott, færði eiginkona landsstjórans Palheta fallegan blómavönd að gjöf. En í blómavendinum voru falin kaffifræ og græðlingar. Kaffiiðnaður Brasilíumanna, sem hófst árið 1727 veltir nú milljörðum króna.

Unga tréð, sem var flutt frá Jövu til Amsterdam árið 1706 og afkvæmi þess í París eru því grunnurinn að allri kaffirækt í Mið- og Suður-Ameríku. Gordon Wringley skrifaði: Þar af leiðandi er erfðamengi arabica-kaffitrésins mjög þröngt.

 Tvær algengustu kaffitegundirnar

Tímaritið ,,Scientific American" segir: Óunnar kaffibaunir eru í raun fræ plöntu sem tilheyrir ættinni Rubiaceae, en í henni eru að minnsta kosti 66 afbrigði af tegundinni Coffea. Yfirleitt eru tvö afbrigði notuð en þau eru Coffea arabica, sem nemur um tveim þriðju af heimsframleiðslunni, og C[offea] canephora eða robusta-kaffi, sem er um þriðjungur framleiðslunnar.

Robysta-kaffið er frekar sterkt með hrjúfan ilm og er yfirleitt notað í skyndikaffi. Tréð gefur af sér mikla uppskeru og er sjúkdómsþolið. Það getur orðið 12 metrar á hæð sem er helmingi hærra en ósnyrt arabica-tréð sem er viðkvæmara og gefur minna af sér. Robusta-baunin hefur 2,8 prósent koffein miðað við þyngd en arabica-baunin fer aldrei yfir 1.5 prósent. Þótt arabica hafi 44 litninga en robusta og aðrar villtar kaffiplöntur 22 litninga, hafa sumar plöntur verið víxlfrjóvgaðar og ný afbrigði mynduð.

Kaffið og Kristnin

Þegar kaffið kom fyrst til Evrópu á 17. öld, töldu sumir prestar það samansuðu frá Satan. Þeir litu á það sem mögulegan staðgengil fyrir vín sem Kristur hafði blessað, eins og þeir skildu það. Bókin Coffee segir að samkvæmt sögunni hafi Klementínus páfi 8. fengið sér sopa og skipt samstundis um skoðun. Hann leysti úr trúarvandanum með því að skíra kaffið táknrænt og gefa þannig kaþólikkum leyfi til að drekka það.


Haustið er komið

Fyrst ég er á annað borð byrjaður að bulla hér á blogginu, finnst mér erfitt að halda aftur af kjaftæðinu í mér.

Haustið er komið, en það finnst mér lang skemmtilegasti tími ársins. Þá fer litadýrðin í náttúrunni í hámark, það verður aftur dimmt á kvöldin þannig að maður getur farið að sjá stjörnurnar aftur og þá er ekki ennþá orðið jafn kalt í veðri eins og er á veturna.

En hvað veldur því að haustið er svona litskrúðug árstíð? Ástæðurnar eru örugglega margar, en ein af þeim er sú að hlýjir dagar og kaldar nætur kalla smám saman fram hundruði af gulum, appelsínugulum og rauðum litbrigðum í laufblöðum og grasið verður gult. Sígrænar furur mynda svo dökkleitan bakgrunn fyrir þetta allt saman. En af hverju verður eitt laufblað gult á meðan það næsta verður rauðleitt?

Þegar dagarnir styttast á haustin fer innri klukka trjánna að loka fyrir fluttning næringarefna og vatns til laufblaðanna. Hvert lauf bregst við með því að mynda aðskilnaðarlag við rætur blaðastikilsins úr eins konar korkefni sem stöðvar alla hringrás milli laufblaðsins og annarra trjáhluta og veldur því að um síðir fellur laufið af. Á meðan þetta er að gerast byrja karótin litarefni að gefa laufunum gulan og appelsínugulan lit. Litarefnin eru yfirleitt til staðar yfir sumartímann en það ber ekki á þeim vegna þess að blaðgrænan er ráðandi í laufinu. Rauði liturinn kemur aðalega frá antósýanini (Jurtabláma), litarefni sem lauf mynda ekki fyrr en á haustin. Blaðgrænan leysist upp þegar hausta tekur og gulu og rauðu litarefnin ná yfirhöndinni. Þegar blaðgrænan er horfin verða asparlauf skærgul og hlynlauf fá á sig fagurrauðan blæ.

Það að tré skuli fella lauf þjónar nytsömum tilgangi, auk þess að vera augnayndi. Með því spara trén bæði vatn og orku yfir veturinn og losa sig líka við eiturefni sem safnast fyrir í laufunum á sumrin. En hvað verður svo um föllnu laufin? Maður sér þetta fjúka til í einhverjar vikur, en svo eru þau horfin. 'I þéttbýlum er hluti þeirra fjarlægður af viðkomandi sveitarfélagi. Skordýr, sveppir, maðkar og aðrir jarðvegsíbúar sjá til þess að allt þetta lífræna efni, sem eftir verður, breytist fljótlega í moltu, sem er ómissandi hráefni í frjósömum jarðvegi. Eftir ægifagra litasýningu breytast laufin sem sagt í áburð fyrir gróðurvöxt næsta vors. Það er varla hægt að hugsa sér betra endurvinnsluferli en þetta.


Verksmiðja dauðans

Ég sá mynd úr seinni heimstyrjöldinni um dagin sem fjallaði um Breta sem sprengdu verksmiðju upp hjá Þjóðverjum. Það sem mér fannst athygglisvert við þessa verksmiðju var það að hún var staðsett inni í fjalli. Í fyrstu hélt ég að um uppspuna væri að ræða, en ákvað svo að kynna mér málið.

Þessi verksmiðja var til og var staðsett í Harzfjöllum í Þýskalandi, um 260 km. suðvestur af Berlín. Bretar sprengdu verksmiðjuna hinns vegar aldrei upp. Verksmiðjan, sem hét Mittelwerk, samanstóð af mjög breiðum 20 km. löngum göngum sem grafin voru inn í fjöllin. Frá árinu 1943 til 1945 unnu þúsundir fanga sem þrælar í þessum göngum. Þeir voru neyddir til að búa til vopn fyrir nasista við skelfilegar aðstæður. Í verksmiðjunni voru framleidd V-1 og V-2 flugskeyti. Þau voru flutt frá Mittelwerk til þeirra staða þar sem þeim var skotið á loft en það var aðalega í Frakklandi og í Hollandi. Þau flugu síðan ein sín liðs að skotmörkum í Belgíu, Bretlandi og Frakklandi þar sem þau féllu af himni ofan og sprungu þegar þau skullu á fyrirstöðu. Nasistar vonuðust jafnvel til að geta búið til flugskeyti sem væri svo öflugt að það gæti flogið með sprengju yfir Atlantshafið, alla leið til New York. Við lok seinni heimstyrjaldarinnar höfðu mörg hundruð V-1 og V-2 flugskeyti lent á borgum í Evrópu. En það var aðeins lítið brot af þeim flugskeytum sem nasistar höfðu framleitt og vonuðust til að geta notað gegn óvinum sínum. Flugskeytin náðu þó aldrei til New York.

Eftir stríðið fluttu fjölmargir vísinda- og tæknimenn, sem höfðu hannað V-1 og V-2 flugskeytin, til annarra landa. Þeir tóku með sér sérfræðiþekkingu sína á eldflaugatækninni og nýttu hana í þeim löndum sem þeir fluttu til. Einn af þessum eldflaugasérfræðingum var Wernher Von Braun. Hann settist að í Bandaríkjunum og lagði hönd á plóginn við að hanna Saturnflaugina, sem flutti menn til tunglsins.

Núna stendur minnismerki rétt við verksmiðjuna fyrrverandi til minnis um þá 60.000 menn sem voru þar í haldi. Margir fanganna ekki bara unnu í þessum köldu og röku göngum heldur voru látnir sofa þar líka. Það er því ekki óraunhæft að þar hafi allt að 20.000 fangar látið lífið, en það er sá fjöldi sem talin er hafa dáið þar. Þessari verksmiðju hefur verið breytt í safn í dag. Safngestir geta farið í skipulagðar skoðunarferðir um göngin. Á gólfinu liggja enn flugskeytahlutar sem hafa legið óhreyfðir síðan árið 1945. Tímaritið ,After the Battle' nefnir þá staðreynd í sambandi við V-1 og V-2 flugskeytin að framleiðsla þeirra kostaði fleirri mannslíf en þau sem féllu fyrir þeim.


« Fyrri síða

Um bloggið

blogg

Höfundur

Furðufuglinn
Furðufuglinn

Færsluflokkar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband