Árstíðirnar

Stuttu eftir að ég byrjaði að blaðra hérna á blogginu skrifaði ég að uppáhalds árstíminn minn væri haustið og kom með nokkrar ástæður fyrir því. Núna ætla ég að blaðra um árstíðirnar almennt.

Á árlegri hringferð sinni um sólina er jörðin á hraða sem nemur 100.000 kílómetrum á klukkustund. Það er nákvæmlega réttur hraði til að vega upp á móti aðdráttarafli sólar og halda jörðinni í hæfilegri fjarlægð frá henni. Ef dregið væri úr brautarhraða jarðarinnar myndi sólin toga hana til sín. Áður en langt um liði myndi jörðin breytast í skrælnaða auðn eins og Merkúríus er, sem er næstur sólu. Mig minnir að daghitinn á Merkúríusi sé um 300 gráður á Celsíus. Ef brautarhraði jarðarinnar væri aukinn, myndi hún fjarlægjast sólina og breytast í gaddfreðna auðn eins og Plútó er, sem er fjarlægastur sólu. Ég held að á Plútó sé nálægt 200 gráða gaddur.

Jörðin snýst alltaf heilan snúning um möndul sinn á 24 klukkutímum. Möndulsnúningurinn veldur því að reglubundið skiptast á ljós og myrkur. Ef snúningstími jarðarinnar um möndul sinn væri t.d. 1 ár, myndi það hafa í för með sér að jörðin sneri sömu hlið að sólinni í heilt ár. Sú hlið yrði líklega sjóðheit eyðimörk meðan fimbulkuldi væri á hinni hliðinni.

Snúningsmöndull jarðarinnar er um 23 gráður miðað við sól. Ef möndulhallinn væri ekki til staðar væru engin árstíðarskipti. Loftslag og veðrátta yrði eins allt árið um kring. Persónulega finnst mér skemmtilegra að hafa árstíðirnar eins og þær eru heldur en að hafa t.d. sumar allt árið í kring. En ef möndulhallinn væri miklu meiri en hann er, myndu sumrin vera mjög heit og veturnir mjög kaldir. Sá möndulhalli sem er á jörðinni veldur hins vegar miklu betri árstíðarskiptum og skemmtilegri fjölbreytni í náttúrunni. Á mörgum stöðum á jörðinni skiptast á upplífgandi vor þegar tré og plöntur vakna og blómskast, hlý sumur sem bjóða upp á alls konar störf og leiki utan dyra, hressandi haustveður með oft ótrúlega fallegu litskrúði laufblaða á trjám og runnum og vetur með fannhvítri og fagurri snjóbreiðu um fjöll og engi.


Hvað eru markmennirnir að gera úti á miðjum velli?

Tvö aumingjalegustu mörkin í leiknum í kvöld voru þegar boltanum var kastað í tómt markið hjá Íslenska liðinu. Báðir markmennirnir hjá íslenska liðinu flæktust út á miðjan völlinn og létu Slóvenana skora þvert yfir völlinn í tómt markið. Birkir gerði sömu gloríuna á fimmtudagskvöldið á móti Svíunum. Lærði hann ekkert?

Eiga markmenn ekki að vera hjá markinu? Eða eru þeir að vonast til að verða miðjumenn? Þá vantar okkur tvo markmenn í Íslenska landsliðið.


mbl.is Alfreð: Frábær fyrri hálfleikur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fall er fararheill.

Það var eins og að horfa á tvö ólík lið leika fyrir Ísland í kvöld. Liðið í fyrri hálfleik stóð þó í Svíunum, en liðið í seinni hálflek lék eins og þeir væru staðgenglar fyrra liðsins og hefði ekki fengið neinar leiðbeiningar um varnarleik.

En þegar maður er á botninum í holu, þá er bara ein leið sem maður kemst; upp á við.

 Ég hef enga trú á öðru en að við komumst langt í þessari keppni.


mbl.is Svíar sigruðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

23 dánir af 104

Þetta hlýtur að vera Súdan-afbrigðið af ebóla veirunni. Samkvæmt skýrslum deyja um 60% sýktra af því afbrygði á meðan 90% deyja af Saír afbrigðinu. Þriðja afbrigðið frá Fílabeinsströndin er allt of langt frá Úganda og Reston-afbrigðið, sem ég veit ekki hvaðan er, ræðst á apa en ekki menn.


mbl.is Skæður Ebóla-vírus í Úganda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég efast um að þetta sé Bin Laden

Ég er viss um að Bin Laden  hafi verið drepinn í árásunum á Bora fjallið eða að hann hafi dáið fljótlega eftir árásina.

Mig grunar að Bandaríkjaher noti nafnið hans og nafn al Qaeda til að mjólka peninga frá Bandaríska þinginu.


mbl.is Evrópa yfirgefi Afganistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar allar leiðir lágu til Rómar

Vegakerfið sem lá um Rómarveldi var samanlagt um 80.000 kílómetrar. Vegirnir héldu fjarlægum skattlöndum í nánum tengslum við höfuðborgina. Þeir tengdu þéttvaxna skóga Gallíu við Grískar borgir og Efratfljótið við Ermasund. Og umfram allt áttu hersveitirnar greiðan aðgang að öllum kimum heimsveldisins til að tryggja völd Rómar. Á kortinu sjást tólf vegir sem liggja til Rómar, þjóðvegirnir sem kvísluðust svo út um allt heimsveldið. Þannig varð málshátturinn til:,,Allar leiðir liggja til rómar."

Vegirnir lágu um Rómarveldi þvert og endilangt. Ein leið til að kynna sér vegakerfið og skilja hvaða þýðingu það hafði fyrir hinn forna heim er að skoða kort frá 13. öld sem kennt er við Peutinger. Ég hef ekki séð kortið sjálft, en ég hef séð eftirprentun af því. Sagnfræðingar telja að Peutinger kortið sé afrit af korti sem upphaflega var gert þegar Rómverskar hersveitir gengu enn á þessum frægu vegum. Árið 1508 eignaðist Konrad Peutinger, borgarstjóri í Ágsborg í Suður Þýskalandi þetta handgerða afrit og festist nafn hans við það. Núna er þetta kort geymt í þjóðarbókasafni Austurríkis í Vínarborg undir Latneska heitinu ,Tabula Peutingeriana'.

Peutinger-kortið er 34 cm. breið bókrolla og þegar henni er rúllað út er hún hátt í sjö metra löng. Upphaflega var þessi bókrolla gerð úr tólf skinnörkum sem límdar voru saman í endana. Ellefu af þeim eru ennþá til. Kortið sýnir Rómarveldi á blómaskeiði þess, en þá náði það allt frá Bretlandi til Indlands.


Eru flær meinlausar?

Ég heyrði þá furðulegu fullyrðingu í dag að flær væru meinlausar. Það fylgdu þeim viss óþægindi, en þær væru að mestu meinlausar. Það sem mér finnst furðulegt við þessa fullyrðingu er sú staðreynd að það voru sýktar flær af rottum sem ollu mestri dreyfingu á Svarta dauða, einum skæðasta heimsfaraldi sögunnar, sem geysaði um miðja 14. öld.

Ég veit ekki mikið um Svarta dauða, en það sem ég veit um þennan faraldur er það að í október árið 1347 kom kaupskip einhversstaðar úr austri og sigldi inn í höfnina í Messinu á Sikiley. Deyjandi menn voru um borð og þeim er lýst þannig að þeir voru alsettir dökkum kýlum á stærð við egg, sem blóð og gröftur vætlaði úr. Sjómennirnir eru sagðir hafa kvalist ákaflega og dóu nokkrum dögum eftir að fyrstu einkenni gerðu vart við sig.

Rottur fóru úr skipinu og blönduðust nagdýraliði staðarins. Þannig deyfðist plágan út upphaflega. Svarti dauði var versta drepsótt Evrópu fram að þeim tíma.

Plágan tók á sig tvær myndir. Önnur myndin birtist þannig að sýkt fló beit mann og sýkillinn barst með blóðinu og olli bólgum og innvortis blæðingum. Hin myndin barst manna á milli við hósta eða hnerra og sýkti lungun. Þar eð báðar myndirnar voru til staðar var plágan gríðarlega skæð og breiddist hratt út. Á aðeins þrem árum lagði hún að velli fjórðung Evrópubúa eða á að giska 25 milljónir manna. Svarti dauði barst til Íslands árið 1402.

Þar sem menn kunnu enga lækningu og enga leið til að koma í veg fyrir smit, fóru margir að hugleiða spádóma biblíunnar þar sem talað er um drepsóttir á endalokatímanum. Margir trúðu því að þetta væri heimsendir. En þetta var ekki heimsendir, plágan fjaraði út undir lok 14. aldar en heimurinn stendur augljóslega enn.

En að halda því fram að flær séu með öllu meinlausar er kjaftæði, þó að þær beri ekki með sér Svarta dauða í dag.


Var einhyrningurinn pakistönsk geit?

Þó að enginn hafi nokkurn tíman séð einhyrning, efuðust fæstir fyrr á öldum um að þetta dýr hafi verið til. Á fyrri hluta fyrstu aldar okkar tímatals skrifaði rómverski rithöfundurinn Pliníus um þetta kynjadýr. Hann lýsti dýrinu sem klifrandi villiasna með u.þ.b. 40 sm. langt horn eða þá - skrifaði hann - er um að ræða indverskt dýr á stærð við hest, með fílsfætur og rófu - og að sjálfsögðu horn. Goðsagnir og hálf-sannleikur eru ekki auðveld viðfangsefni fyrir vísindamann, en þó þrjóskaðist þýski prófessorinn Erich Thenius frá steingervingasafninu við háskólann í vín, við að rannsaka þetta. Hann byrjaði á að útiloka það sem Pliníus hafði kallað indverskt dýr og taldi að um venjulegan skjaldnashyrning væri um að ræða. Hann kynnti sér dýrafræðiritið ,Physiologicus' sem ritað var á miðöldum, en þar er einhyrningi lýst sem litlu klaufdýri með eitt beint horn, sem hringar sig eins og gormur. Dýrið er líka prýtt síðu faxi undir hálsinum, það er með vangaskegg og langa rófu. Þessa lýsingu telur Thenius eiga ótrúlega vel við skrúfugeit, sem nú er nærri því útdauð, en lifði áður í Pakistan og hann er nú þeirrar skoðunar að þessi dularfulli einhyrningur hafi einfaldlega verið skrúfugeit, Þetta einstaka klifurdýr er með undin horn. Reyndar er geitin með tvö horn en ekki eitt eins og einhyrningurinn á að vera með, en Theníus bendir á að oftast hafi dýr verið teiknuð frá hlið á miðöldum og þess vegna sést bara eitt horn.

Þetta skyldi þó ekki vera rétt?


Hvað varð um forneðlurnar?

Fram til ársins 1824 vissu menn ekki að forneðlurnar voru til. En það ár voru steingerð bein nokkurra tegunda skriðdýra grafin úr jörð á Englandi. Breski steingervingafræðingurinn Richard Owen kallaði þessi dýr Dínosauria eftir grísku orðunum deinos og sauros sem þýða ,hræðileg eðla'. Þó að forneðlurnar séu í reyndinni flokkaðar sem skriðdýr í líffræðilegum skilningi ganga þær ennþá undir nafninu ,eðlur'.

Öll þau berglög, sem í hafa fundist mannvistarleifar, eru fyrir ofan þau berglög sem steingervingar forneðlanna eru. Bókin A Vanished World: The Dinosaurs of Western Canada segir að ,,allar ellefu megintegundir forneðlanna hafi dáið út í miðvesturhluta landsins um svipað leyti." Þetta, ásamt því að mannabein hafa ekki fundist með forneðlubeinum, er ástæðan fyrir því að flestir vísindamenn telja að tími forneðlanna hafi liðið undir lok áður en menn komu fram á sjónarsviðið. Þó telja sumir aðra ástæðu fyrir því að bein forneðla og manna finnast hvergi saman - þá að forneðlur lifðu á öðrum svæðum en menn. Ólík sjónarmið af þessu tagi sýnir fram á að steingervingaskráin lúrir fast á leyndardómum sínum og enginn maður nú á dögum veit svarið við þessu.

 

Að sjálfsögðu veit ég ekki betur en aðrir hvernig forneðlurnar dóu út. En það eru margar kenningar í gangi um hvað kom fyrir þær. Samkvæmt bókinni The riddle of the Dinosaur hafa sumir sagt að forneðlurnar hafi horfið af sjónarsviðinu vegna loftlagsbreytinga, aðrir hafa talað um breytingu á loftþrýstingi hér niður við jörðina og enn aðrir hafa talað um sjúkdóma eða jafnvel sníkjudýr. Bókin bendir á þá möguleika að eitraðar lofttegundir af völdum eldgosa hafi drepið eðlurnar eða að smá spendýr hafi etið egg þeirra og þar er líka minnst á umpólun.

Mér sýnist þetta allt vera tómar getgátur og það geti í raun enginn vitað hvað kom fyrir.


Næsta síða »

Um bloggið

blogg

Höfundur

Furðufuglinn
Furðufuglinn

Færsluflokkar

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband